Gunnar Nelson var varla lentur í London í gær er UFC var búið að setja hann í fyrsta verkefni bardagavikunnar.
Hann fékk að klára að árita einhver hundruð plakata sem bardagamenn þurfa alltaf að gera. Ekki skemmtilegasta verkefnið en Gunni gerir þetta nær oftast með bros á vör og tekur þeim verkefnum sem fyrir liggja.
Annars var dagurinn tekinn rólega hjá Gunnari sem skoðaði æfingaaðstöðuna á Hilton-hóteli bardagakappanna og fékk sér svo að borða áður en hvíld tók við.
Í dag bíður svo fjöldi viðtala og síðar um daginn er svo opin æfing hjá bardagaköppunum þar sem aðdáendur geta mætt frítt til þess að sjá.
Við munum taka púlsinn á Gunnari á eftir og flytja ykkur svo tíðindi af stöðu mála hjá honum þegar stutt er í stóru stundina.
Gunnar Nelson berst við Bretann Leon Edwards í London næstkomandi laugardag. Bardaginn er í beinni á Stöð 2 Sport. Vísir er í London og mun fylgjast ítarlega með öllu í aðdraganda bardagans.

