Þetta er fjórði dagurinn í röð sem No borders, ásamt öðrum samtökum, standa að kyrrsetumótmælum í anddyri dómsmálaráðuneytisins. Þetta gera þau í þeirri von um að fá fund með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, dómsmálaráðherra, til að ræða um stöðu hælisleitenda hér á landi.
„Ég get staðfest að það voru fimm aðilar handteknir fyrir að hlíta ekki fyrirmælum lögreglu, margítrekuðum, og þau voru flutt á lögreglustöð í framhaldinu og þau mega eiga von á að fá sektir fyrir að hlíta ekki fyrirmælum,“ segir Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Hver voru fyrirmælin?
„Að yfirgefa anddyrið. Ítrekuð fyrirmæli. Það var í rauninni búið að gefa þessi fyrirmæli síðustu þrjá daga. Það var búið að bera þau út í þrjá daga og þótti nóg komið. Næsta skref var að handtaka þau og sekta fyrir.“
Hópur mótmælenda hyggst næst mótmæla fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu.
Tilkynningu lögreglu vegna mótmælanna má sjá hér fyrir neðan:
Fimm mótmælendur voru handteknir í húsakynnum dómsmálaráðuneytisins um fjögurleytið í dag, en þeir neituðu að hlýða ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa húsnæðið.
Lögreglan kom á vettvang að beiðni ráðuneytisins, fimmmenningarnir voru fluttir á lögreglustöð til skýrslutöku.

