Óttast er að þúsundir manna sitji fastir í afskekktum þorpum á hamfarasvæðum í Mósambík eftir að fellibylurinn Kenneth gekk þar yfir á fimmtudag. Björgunarliði gengur erfiðlega að komast að sumum þorpanna enda er enn úrhellisrigning og hvassviðri með hættu á frekari flóðum og skriðum.
Þúsundir íbúðarhúsa eru sagðar rústir einar, rafmagnslínur hafa skemmst og flætt hefur yfir láglend svæði eftir að Kenneth gekk á land sem fjórða stigs fellibylur á fimmtudagskvöld. Rafmagnsleysið hefur ennfremur torveldað fjarskipti á svæðinu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Um tuttugu þúsund manns höfðu leitað í neyðarskýli áður en bylurinn gekk á land. Fram að þessu eru fjórir taldir af, þrír í eyríkinu Kómoros og einn í Mósambík.
Aðeins mánuður er liðinn frá því að fellibylurinn Idai olli eyðileggingu í Mósambík og nágrannalöndum þess. Rúmlega 900 manns fórust af völdum Idai í þremur löndum.
Alþjóðaveðurfræðistofnunin segir fordæmalaust að tveir öflugir af þessum styrkleika skelli á Mósambík á sama árstíma og að engar heimildir séu um fellibyl eins norðarlega og þar sem Kenneth hefur látið til sín taka nú.
