Öryggisstofnunum landsins höfðu borist upplýsingar frá öðru ríki um að mögulega væri von á hryðjuverkárásum en svo virðist sem að lítið hafi verið aðhafst vegna þeirra upplýsinga. Þá segir ríkisstjórnin að þær upplýsingar hafi ekki borist til forsætisráðherra landsins eða annarra ráðherra.
Íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni og sagt að árásarmennirnir hafi verið „hermenn“ samtakanna. Samkvæmt AP fréttaveitunni eru yfirvöld Srí Lanka óviss um aðkomu ISIS að árásunum en þó er talið að erlendir vígamenn hafi ráðlagt og fjármagnað árásirnar.
58 hafa verið handteknir vegna árásanna en þeir eru allir frá Srí Lanka.

Einn árásarmannanna er sagður hafa verið lögfræðingur og einhverjir munu hafa stundað nám í Bretlandi og Ástralíu.
Yfirvöld Srí Lanka hafa sagt upplýsingarnar um mögulegar árásir hafa komið frá bæði Indlandi og Bandaríkjunum. Í samtali við CNN segir Alaina Teplitz, sendiherra Bandaríkjanna í Srí Lanka, að Bandaríkin hafi ekki búið yfir slíkum upplýsingum. Upplýsingarnar er sagðar hafa komið frá ISIS-liða í haldi Indverja.
Íslamska ríkið birti myndband af sjö mönnum lýsa yfir hollustu við hryðjuverkasamtökin en umfangsmikil leit stendur nú yfir að Zahran Hashim, sem leiðir samtökin National Thowheeth Jama'ath (NTJ) og er talinn vera einnig á umræddu myndbandi, samkvæmt AFP fréttaveitunni.