Stjórnvöld í Brúnei hafa fallið frá því að framfylgja lögum sem leggja dauðarefsingu við samkynhneigð í kjölfar áberandi mótmæla og gagnrýni á alþjóðavísu. Lögin verða áfram í gildi en tímabundin stöðvun á að þeim hefur verið framlengd.
Hassanal Bolkiah soldán framlengdi tímabundna stöðvun á dauðarefsingum sem hefur verið í gildi frá 1957 í gær. Upphaflega ætluðu stjórnvöld að framfylgja nýrri og strangri túlkun á sjaríalögum múslima. Samkvæmt henni hefðu þeir sem gerðust „sekir“ um samkynhneigð eða hjúskaparbrot getað verið grýttir til dauða.
Fyrirætlanir Brúnei vöktu hörð viðbrögð. Frægðarfólk á vesturlöndum eins og leikarinn George Clooney og söngvarinn Elton John tóku þátt í mótmælum og hvöttu til þess að fólk sniðgengi Brúnei og fyrirtæki soldánsins.
Soldáninn fullyrti í gær að misskilningur hafi ríkt um framkvæmd laganna, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Gildi þeirra ætti eftir að verða ljóst. Þrátt fyrir að hann tilkynnti um að dauðarefsingum yrði ekki beitt er samkynhneigð enn refsiverð í Brúnei. Við henni liggur allt að tíu ára fangelsisvist.
Hætt við að framfylgja dauðarefsingum við samkynhneigð í Brúnei

Tengdar fréttir

Brúneiskum lögum um samkynhneigð mótmælt í London
Tugir manna söfnuðust saman fyrir utan Dorchester hótelið sem er í eigu Hassanal Bolkiah soldáns Brúnei og mótmæltu þar lagabreytingum sem gerðar voru nýverið í landinu.

Brúnei leggur dauðarefsingu við samkynhneigð
Sameinuðu þjóðirnar segja að sjaríalögin í landinu séu alvarlegt bakslag fyrir mannréttindi.