Liðsforingi í kanadíska hernum hefur verið ákærður fyrir að brjóta kynferðislega gegn öðrum hermanni. Brotið er sagt hafa átt sér stað þegar freigátan HMSC Halifax var í höfn í Reykjavík í fyrra.
Í frétt kanadísku fréttasíðunnar Global News kemur fram að rannsókn lögreglu hafi hafist seint í október eftir að þriðji aðili tilkynnti um að liðsmaður áhafnar freigátunnar hafi orðið fyrir kynferðisárás við skyldustörf um borð í skipinu.
Rannsakendur hafi tekið á móti skipinu þegar það kom næst til hafnar í Belgíu í byrjun nóvember. Þar hafi þeir rætt við fórnarlambið og stjórnendur skipsins. Liðsforinginn hafi síðan verið ákærður fyrir kynferðisbrot.
Kanadískur hermaður ákærður fyrir kynferðisbrot í Reykjavík
Kjartan Kjartansson skrifar
