Marshae Jones var komin fimm mánuði á leið þegar hún lenti í rifrildi við aðra konu fyrir utan lágvöruverðsverslun í Birmingham í desember. Lögreglan segir að rifrildið hafi snúist um barnsföður hennar. Því lauk með því að Ebony Jemison, 23 ára gömul kona, skaut Jones í magann. Jones lifði af en fóstrið ekki, að sögn Washington Post.
Engin ákæra var gefin út á hendur Jemison sem var upphaflega sökuð um manndráp. Lögreglan hélt því fram að Jones hafi átt upptökin að rifrildinu. Jemison hafi skotið Jones í sjálfsvörn. Fóstrið væri eina raunverulega fórnarlambið í málinu.
„Það var móðir barnsins [svo] sem hóf og hélt rifrildinu áfram sem leiddi til dauða ófædds barns hennar,“ sagði Danny Reid, liðsforingi í lögreglunni við staðarfréttasíðuna AL.com.
An Alabama woman who was shot in the stomach while pregnant has been indicted and charged with manslaughter for the death of the fetus.
— AL.com (@aldotcom) June 27, 2019
Charges against the shooter have been dismissed. https://t.co/YI0fiTHI5j pic.twitter.com/4Q9QbTBq4Q
Reid heldur því fram að fóstrið hafi verið dregið óviljandi inn í rifrildið og að það hafi verið á ábyrgð móður þess að verja það.
Mál Jones hefur vakið reiði samtaka sem berjast fyrir rétti kvenna til þungunarrofs. Ríkisþing Alabama samþykkti nýlega afturhaldssömustu þungunarrofslög Bandaríkjanna. Samtökin telja að lögin geti haft áhrif á önnur sakamál sem tengjast ekki þungunarrofi.
Amanda Reyes, framkvæmdastjóri Yellowhammer-sjóðsins, segir að Alabama-ríki sýni með ákærunni að það líti svo á að eina hlutverk óléttra kvenna sé að eignast lifandi barn og að allt sem hún kynni að gera sem gæti komið í veg fyrir það sé glæpsamlegt.
„Á morgun verður það önnur svört kona, kannski fyrir að fá sér drykk á meðan hún er ólétt. Og eftir það, önnur, fyrir að fá ekki viðunandi meðgöngumeðferð,“ segir Reyes.