Borgaryfirvöld í San Francisco hafa samþykkt að banna sölu á rafrettum í borginni og verður netverslunum bannað að senda þær á heimilisföng innan borgarmarkanna. Borgin er þar með sú fyrsta í Bandaríkjunum til þess að samþykkja slíkt bann. BBC greinir frá.
Ákvörðunin um að banna rafrettur er tekin vegna lýðheilsusjónarmiða en ástæðan er sú að ekki þykir nægilega ljóst hverjar afleiðingarnar af notkun þeirra eru. Fyrr á árinu gaf matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna framleiðendum frest til ársins 2021 til þess að meta áhrif af vörum þeirra.
London Breed, borgarstjóri San Francisco, hefur tíu daga til þess að samþykkja löggjöfina en hefur gefið í skyn að hún muni samþykkja bannið. Lögin taka gildi sjö mánuðum eftir samþykki borgarstjórans en líklegt þykir að framleiðendur muni láta reyna á lögin fyrir dómstólum.
Í San Francisco er að finna höfuðstöðvar rafrettuframleiðandans Juul, en Juul-rafrettur eru þær vinsælustu á markaðinum í Bandaríkjunum með sjötíu prósenta markaðshlutdeild. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa enn sem komið er ekki tjáð sig um ákvörðun borgaryfirvalda.

