Úrugvæ tryggði sér toppsætið í C-riðli Copa America í nótt er liðið vann 1-0 sigur á Síle. Edinson Cavani með eina markið á 82. mínútu.
Þetta var fyrsti leikur þjóðanna síðan 2015 en þá var Cavani sendur af velli. Framherjinn trompaðist nefnilega þegar Gonzalo Jara, varnarmaður Síle, setti hönd sína á afturendann hans. Jara fékk svo þriggja leikja bann fyrir athæfið.
Síle fær að keppa við Kólumbíu en Kólumbía er eina liðið sem hefur unnið alla sína leiki á mótinu. Úrúgvæ mætir Perú.
Ekvador varð svo að sætta sig við að sitja eftir þar sem liðið náði ekki að leggja sprækt lið Japan sem hefur komið þægilega á óvart í þessu móti.
Ekvador og Japan gerðu 1-1 jafntefli þar sem Shoya Nakajima kom Japan yfir en Angel Mena jafnaði fyrir Ekvadora.
Átta liða úrslit:
Brasilía - Paragvæ
Venesúela - Argentína
Kólumbía - Síle
Úrúgvæ - Perú
