Vega-eldflaug geimferðafyrirtækisins Arianespace fórst skömmu eftir geimskot í nótt. Um borð var hergervitungl frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Talið er að eldflaugin hafi hrapað í Atlantshafið norður af skotstaðnum í Frönsku Gíönu.
Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC er þetta í fyrsta skipti sem Vega-eldflaugin bregst en þetta var fimmtánda geimskot hennar. Það hefur eftir Luce Fabreguettes, varaforseta Arianespace, að „meiriháttar frávik“ hafi átt sér stað um tveimur mínútum eftir að eldflaugin hóf sig á loft, rétt um það leyti sem kveikja átti á öðru þrepi eldflaugarinnar. Geimskotinu hafði verið frestað í tvígang vegna veðurs.
Ítalska og evrópska geimstofnunin hönnuðu Vega-eldflaugina saman og var hún notuð í fyrsta skipti árið 2012. Hún átti að gera Evrópuþjóðum kleift að skjóta litlum gervihnöttum út í geim.
Arabíska gervitunglið sem fórst með eldflauginni nefndist FalconEye1. Það átti að vera það fyrra af tveimur sams konar tunglum sem komið væri fyrir á braut um jörðina.
Evrópsk eldflaug hrapaði í Atlantshafið
Kjartan Kjartansson skrifar
