Skoðun

Siðblindur Sveinn Andri Sveinsson

Skúli Gunnar Sigfússon skrifar
Svo háttar til að lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson var í september 2016 skipaður skiptastjóri yfir þrotabúi heildsölunnar Eggerts Kristjánssonar hf. (EK), sem í dag er nefnt EK 1923 ehf. Heildsalan hafði um langt árabil átt við rekstrarvanda að etja og þrátt fyrir að ég hafi lagt fyrirtækinu til hátt á annað hundrað milljónir eftir að ég eignaðist það ásamt öðrum í kringum áramótin 2013-14, tókst því miður ekki að forða því frá rekstrarþroti.

Einföld fasteignaviðskipti

EK átti stóra fasteign að Skútuvogi 3, sem frá upphafi lá fyrir að yrði eign fasteignafélags í minni eigu. Gerður var kaupsamningur um eignina rétt fyrir áramótin 2013-14 og honum þinglýst með fullu samþykki þáverandi eigenda EK. Á árinu 2014 var hins vegar ákveðið að færa eignina yfir í fasteignafélagið með skiptingu EK, með þeim hætti sem lög áskilja. Í skiptingu félags felst að eigandi eins félags lætur af hendi eign til eiganda annars félags og fær eign á móti. Í þessu tilviki eignaðist fasteignafélag mitt, Sjöstjarnan ehf., Skútuvog 3 og greiddi eigendum EK annars vegar með yfirtöku skulda og hins vegar með útgáfu nýrra hlutabréfa í Sjöstjörnunni. Viðskiptin fóru fram á bókfærðu verði eignarinnar eins og tíðkast við skiptingu eigna og voru eignaskiptin láta gilda frá 1. október 2013, en heimilt er að láta slík skipti taka gildi allt að sex mánuði aftur í tímann. Á þessum tíma var EK að fullu gjaldfært, en það er lykilatriði að allar kröfur, sem urðu til fyrir þessi skipti, eru greiddar að fullu.

Endurskoðunarfyrirtækið KPMG framkvæmdi skiptinguna og gætti þess sérstaklega að skiptin færu fram á réttu verði og að fjárhagur EK yrði að minnsta kosti jafn góður eftir skiptin og fyrir. Þetta staðfestu endurskoðendur KPMG. Skiptin voru auglýst í Lögbirtingablaðinu og gafst kröfuhöfum EK kostur á að gera athugasemdir við þau, en engar athugasemdir komu fram. Faxaflóahafnir höfðu forkaupsrétt að fasteigninni en kusu að nýta hann ekki. Skútuvogur 3 fór þannig sannanlega á fullu verði inn í Sjöstjörnuna því að vitanlega hefði forkaupsréttarhafi nýtt sinn rétt ef verið væri að ráðstafa eign á undirverði, auk þess sem óháður dómkvaddur matsmaður hefur síðar staðfest að eigninni hafi verið skipt á réttu verði.

Hótanir í stað samninga

Víkur þá sögunni til Sveins Andra Sveinssonar skiptastjóra sem hófst þegar handa og notaði þá aðferð sem hann kann best, þ.e. að hóta og ógna. Hann hótaði að kæra mig og samstarfsfólk mitt fyrir alla mögulega og ómögulega hluti sem áttu sér enga stoð í raunveruleikanum, ef við ekki greiddum hverja einustu krónu sem honum hugkvæmdist að senda kröfu fyrir. Ekki var léð máls á samningaviðræðum þegar lögmaður minn óskaði eftir því. Sveinn Andri fylgdi hótununum svo eftir með tilhæfulausum kærum.

Samkvæmt Sveini Andra áttu allar mínar gjörðir, og samstarfsfólks míns, að hafa verið gerðar með það fyrir augum að svíkja, pretta og auðgast ólöglega. Með þessari taktík­ reyndi Sveinn Andri að sá efa í huga embættismanna og dómara, auk kröfuhafa búsins, því ef einhver öskrar „reykur“ nógu oft fara margir eðlilega að trúa því að einhvers staðar hljóti að vera eldur laus.

Sveinn Andri hefur stoltur sagt frá því á skiptafundum að „geim­planið“ hafi alltaf verið að hann sjálfur fengi peninginn, sem var til ráðstöfunar í búinu og notaði hann til að „ná í meiri aur“ og fara svo í „Stóra fasteignamálið“. „Meiri aurinn“ auk peninganna sem til voru í búinu, voru alls 117 milljónir. Allt þetta fé hefur Sveinn Andri nú ryksugað úr búinu.

„Stóra fasteignamálið“ snýst um hvort Sveinn Andri geti f.h. þrotabúsins krafið félag mitt um fulla greiðslu samkvæmt kaupsamningi fyrir sömu fasteign og búið er að greiða fyrir með skiptingunni, sem rakin er að framan. Kaupsamningnum var ekki ætlað að hafa gildi, enda var búið að færa fasteignina yfir og greiða fyrir hana með skiptingunni. Þrátt fyrir þetta leitar Sveinn Andri atbeina dómstóla til að neyða mig til að greiða tvisvar fyrir sömu fasteignina – og það enga smáfasteign, heldur fasteign upp á um hálfan milljarð króna. Með öðrum orðum var það ætlun Sveins Andra frá byrjun að höfða mál vegna kaupsamnings sem hafði ekkert gildi og fá mig til að greiða aftur fyrir fasteign sem ég hafði þegar greitt að fullu.

Vill fá greitt tvisvar fyrir sömu eignina

Til að einfalda málið má líkja þessu við að þú, lesandi góður, hefðir keypt nýja íbúð á 50 milljónir af verktaka og skrifað undir kaupsamning um að greitt yrði fyrir hana með peningum. Nokkrum dögum síðar hefðir þú hins vegar komist að samkomulagi við verktakann um að í stað peninga myndir þú greiða fyrir íbúðina með annarri íbúð sem væri jafnverðmæt. Svo hefði verið gengið frá kaupunum á löglegan hátt miðað við þessi umsömdu skipti á íbúðum. Þú hefðir engar áhyggjur haft af gamla samningnum, þar sem gengið var frá kaupunum á umræddri íbúð á annan hátt. Hins vegar hefði viljað svo illa til nokkrum árum seinna að verktakinn sem seldi þér íbúðina verður gjaldþrota. Skipaður er skiptastjóri sem lætur ekki smámuni eins og siðsemi og velsæmi flækjast fyrir sér. Þessi skiptastjóri finnur gamla kaupsamninginn um eignina og þrátt fyrir að hann sjái að eignin hafi verið seld í skiptum fyrir aðra íbúð, ákveður hann að fara í dómsmál og krefjast þess að þú borgir aftur 50 milljónir fyrir íbúðina og það með dráttarvöxtum nokkur ár aftur í tímann. Þannig liggur einfaldlega í þessu „Stóra fasteignamáli“ Sveins Andra Sveinssonar, nema tölurnar eru auðvitað mun hærri.

Búinn að tæma þrotabúið í sjálfan sig

Eins og áður var nefnt hefur Sveinn Andri aldrei léð máls á samningum heldur frekar viljað fara með öll mál fyrir dóm. Með samningum fengju kröfuhafar megnið af öllum peningunum sem næðust inn, en með því að fara í dómsmál renna þeir allir til Sveins Andra sem lögmannsþóknun. Vissulega hefur þrotabúið unnið tvö dómsmál en fjárhæðirnar sem búinu voru dæmdar voru því sem næst jafnháar og þóknun Sveins Andra hefur verið fyrir málareksturinn og heimtur búsins því engar. Lögmaður minn reyndi ítrekað að fá Svein Andra til að setjast niður og semja um þau mál sem fyrir lá að mögulega yrði rift. Sveinn Andri er ekki vitlaus maður, þótt siðblindur sé, og veit að náist samningar getur hann ekki skráð á sig vinnustundir við að reka dómsmál.

Um síðustu áramót var Sveinn Andri búinn að skrá á sig meira en 2.400 klukkustunda vinnu við búskiptin, en það er næstum eitt og hálft ár í fullri vinnu fimm daga vikunnar. Sveinn Andri rukkar rétt um 50 þúsund krónur fyrir hverja klukkustund, þannig að kostnaðurinn við eingöngu hans „vinnu“ er kominn í 120 milljónir króna. Það er meira en til var í búinu. Þóknun hans fyrir meinta vinnu við þetta eina þrotabú nam því 4,5 milljónum króna í hverjum mánuði frá því að honum var úthlutað búinu í september 2016 til ársloka 2018. Vitað er að Sveinn Andri sinnti fjölmörgum öðrum lögmannsverkefnum á sama tímabili.

Héraðsdómur Reykjavíkur féll fyrir lögfræði- og reiknibrellum Sveins Andra og felldi dóm á þann veg að bæði kaupsamningurinn og skiptasamningurinn skuli halda fullu gildi og að greiða beri samkvæmt báðum. Dómurinn færði engin rök fyrir því hvernig hvort tveggja gæti verið gilt, enda ekki hægt. Því verður ekki trúað að Landsréttur leggi blessun sína yfir slíka endaleysu.

Sveinn Andri á mikið undir í þessu máli. Hann er búinn að eyða öllum peningunum, sem til voru í þrotabúi EK, aðallega í sjálfan sig, en þó líka í vini sína og kunningja, sem hann hefur kallað sér til aðstoðar. Hans eina von er að Landsréttur staðfesti endaleysuna frá héraðsdómi um að greiða skuli tvisvar fyrir sömu eignina. Ella er hann ábyrgur gagnvart kröfuhöfum EK 1923 ehf., sem ekki fá svo mikið sem túskilding með gati úr búinu, því að skiptastjórinn, sem kallaður hefur verið opinberlega „endaþarmur íslenskrar lögmennsku“, er búinn að sjúga hvern einasta eyri í eigin rann.

Athugasemd frá Sveini Andra Sveinssyni:

Landsréttur hefur fram til dagsins í dag staðfest eitt riftunarmál gegn félagi í eigu greinarhöfundar (20 mkr.) og dæmt greinarhöfund til að greiða þrotabúinu skaðabætur að fjárhæð kr. 5 mkr. Fjölskipaður dómur Héraðsdóms Reykjavíkur hefur síðan dæmt annað félag í eigu greinarhöfundar til þess að greiða búinu rúmlega 400 mkr. Það mál sætir áfrýjun. Héraðssaksóknari er síðan með í rannsókn kærur skiptastjóra á hendur greinarhöfundi. Allar hafa þessar aðgerðir verið samþykktar af kröfuhöfum. Ætli sé ekki rétt í þessu eins og svo oft að spyrja að leikslokum.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×