Ekkert verður af fyrirhugaðri heimsókn Donalds Trump Bandaríkjaforseta til Póllands um helgina því í kvöld tilkynnti Trump að hann þyrfti að aflýsa ferðinni vegna fellibyljarins Dorians sem stefnir á Flórída annað hvort seint á sunnudagskvöld eða snemma á mánudagsmorgun.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, mun fara til Póllands í hans stað og verður viðstaddur minningarathöfn sem haldin er í Varsjá af því tilefni að áttatíu ár eru liðin síðan seinni heimsstyrjöldin braust út.
Trump tilkynnti yfirvöldum í Póllandi um ákvörðun sína áður en hann greindi frá henni á blaðamannafundi í Hvíta húsinu.
Trump sagðist þurfa að vera til staðar í heimalandinu til að vera til staðar þegar fellibylurinn gengur á land og til að tryggja úrræði til handa íbúum Flórída.
„Það lítur allt út fyrir að þetta verði mjög, mjög kraftmikill fellibylur,“ sagði Trump.
Pence er síðan væntanlegur til Íslands 4. september næstkomandi.
Aflýsir Póllandsferð vegna fellibyljarins Dorian

Tengdar fréttir

Mike Pence hyggst ræða við Íslendinga um „innrásir“ Kína og Rússlands á norðurslóðir
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hyggst í Íslandsheimsókn sinni í næstu viku ræða um "innrásir“ Kína og Rússlands inn á norðurslóðir. Þetta hefur Reuters-fréttastofan í dag eftir háttsettum embættismanni Trump-stjórnarinnar.

Sjúkraþyrlur bandaríska hersins á Íslandi vegna heimsóknar Pence
Landhelgisgæslunni stendur til boða að kalla út þyrlurnar ef þörf þykir á meðan þær eru á landinu.