Forsaga málsins er sú að Boris Johnson lét hafa eftir sér á fundi G7-ríkjanna í Frakklandi um helgina að innflutningstakmarkanir á hinni vinsælu Melton Mowbray grísakjötsböku væri lýsandi dæmi um hversu mikilvægt það væri fyrir Bretland að geta gert fríverslunarsamning við Bandaríkin.
„Melton Mowbray bökurnar, sem eru meðal annars til sölu í Taílandi og á Íslandi, eru ekki til sölu í Bandaríkjunum vegna einhvers konar takmarkana af hálfu matvælaeftirlitsins,“ sagði Johnson og átti þar við matvælaeftirlitið í Bandaríkjunum.

„Ég veit hins vegar að þær er til sölu í verslunum Iceland“
Ummælin vöktu nokkra athygli í Bretlandi og var Matthew O'Callaghan, formaður hagsmuna samtaka þeirra sem framleiða Melton Mowbray grísabökuna kallaður í viðtal á BBC 4 í morgun. Þar var hann spurður út í hvort fullyrðing forsætisráðherrans væri sönn.„Nei, eiginlega ekki,“ svaraði O'Callaghan. „Við flytjum hvorki út til Taílands né Íslands.“
Þáttastjórnendur ítrekuðu þá spurninguna og svaraði O'Callaghan á sama máta.
„Ekki svo ég viti, nei,“ svaraði hann um hinn meinta útflutning til Taílands og Íslands. „Ég veit hins vegar að þær er til sölu í verslunum Iceland.“
Chairman of the Melton Mowbray Pork Pie Association @MeltonMatthew says his pies are not sold in Thailand or Iceland. Boris Johnson claimed they were sold there but not in the US, when he was giving an example of an American trade restriction #r4todayhttps://t.co/o4I0km5T04pic.twitter.com/qAeOFjXLr3
— BBC Radio 4 Today (@BBCr4today) August 26, 2019
Óvíst hvort bökurnar hafi nokkru sinni verið fluttar inn hingað til lands
BBC leitaði þá svara hjá forsætisráðuneyti Bretlands og fékk þau svör til baka að upplýsingarnar sem Johnson byggði fullyrðinguna sína á stæðust miðað við þær upplýsingar sem ráðuneytið hefði undir höndum.Samkvæmt gögnum frá hinu tiltölulega nýlega alþjóðaviðskiptaráðuneyti Bretlands hefði fyrirtækið Walkers & Sons flutt út lítið magn af bökunum til Íslands, Taílands, Singapúr og til ríkja í Karabía-hafinu.
Því næst hafði BBC samband við Walkers & Sons og fékk fréttamaður þær upplýsingar að fyrirtækið væri hætt útflutningi á grísabökunum. Það hefði þó, þangað til fyrir um tveimur árum, flutt út lítið magn til Singapúr.
Bökurnar sem um ræðir, Melton Mowbray, eru nefndar eftir samnefndum bæ í Leicester-skíri í Bretlandi. Þær njóta landfræðilegrar verndar samkvæmt reglum Evrópusambandsins.
Það þýðir að aðeins þeir framleiðendur sem nota hina upprunalegu uppskrift mega nota vörumerkið Melton Mowbray, auk þess sem að þeir þurfa að framleiða bökurnar í grennd við bæinn sjálfan.