Óttast er að tala látinna muni hækka.
Veðurfræðingar í Bandaríkjunum búast við því að Dorian muni færast „hættulega nálægt“ ströndum Flórída næstu nótt og á miðvikudaginn og þaðan muni hann fara norður með strönd Bandaríkjanna á fimmtudaginn.
Eyjurnar Abaco og Grand Bahama hafa orðið hvað verst úti vegna Dorian en þar olli hann gífurlegum sjávarflóðum. Um 70 þúsund manns búa á eyjunum. AP fréttaveitan lýsir því á þann veg að vatnið hafi náð upp á aðrar hæðir húsa og fólk hafi leitað skjóls á háaloftum.
Rauði krossinn áætlar að um 13 þúsund heimili séu skemmd eða eyðilögð en búið var að vara við því að sjávarflóð gætu farið sjö metra upp fyrir hefðbundið sjávarmál.
Embættismenn á Bahama segja að yfirvöldum hafi borist gífurlegur fjöldi hjálparbeiðna og þar á meðal beiðni um að fimm mánaða barn hafi verið fast á þaki húss.
Hubert Minnis, forsætisráðherra Bahamaeyja, segir þetta sögulegan harmleik.
„Eyðileggingin er án fordæma og mjög umfangsmikil,“ segir Minnis.
Hundruðum þúsunda manna hefur verið gert að flýja heimili sín í Flórída, Georgíu og Suður-Karólínu en þar er einnig búist við miklum flóðum. Gert er ráð fyrir því að Dorian muni ekki ná landi á meginlandi Bandaríkjanna en það þykir þó mjög tæpt, miðað við nýjustu spár. Einungis nokkra kílómetra frávik þarf til að auga fellibylsins nái landi.