Loftárásir bandalagshersins undir stjórn Sáda á fangelsi uppreisnarmanna húta urðu rúmlega hundrað manns að bana og særðu tugi til viðbótar í Jemen í gær. Árásirnar eru þær mannskæðustu í stríðinu það sem af er þessu ári.
AP-fréttastofan segir að 86 lík hafi verið grafin upp úr rústum bygginga í Dhamar-héraði í suðvestanverðu Jemen um miðjan dag í dag en leitar- og björgunarlið leitar enn að fólki. Uppreisnarmenn húta notuðu byggingarnar sem fangelsi að sögn Rauða hálfmánans í Jemen.
Talið er að um 170 manns hafi verið haldið í fangelsinu þegar sprengjum byrjaði að rigna þar í gær. Um fjörutíu manns særðust en Alþjóðlegi Rauði krossinn telur aðra af.
Bandalagsherinn sem Sádar leiða gegn hútum sem njóta stuðnings Írana hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir mannskæðar loftárásir á skóla, sjúkrahús og brúðkaup. Þúsundir óbreyttra borgara hafa fallið í árásunum.
Talsmenn bandalagshersins neita því að ráðist hafi verið á fangelsi. Segja þeir að loftárásir hafi verið gerðar á byggingar húta þar sem dróna og eldflaugar hafi verið geymdar. Hútar segja aftur á móti að fangarnir hafi verið hermenn hliðhollir ríkisstjórn Jemens . Íbúar á svæðinu segja að ættmenni þeirra sem hafi verið gagnrýnir á uppreisnarmenn húta hafi verið haldið í fangelsinu.
Yfir hundrað manns féllu í loftárásum Sáda á fangelsi

Tengdar fréttir

Aðskilnaðarsinnar ná yfirráðum á forsetahöllinni í Jemen
Aðskilnaðarsinnar í Jemen hafa náð yfirráðum í hafnarborginni Aden eftir margra daga átök við hersveitir stjórnar landsins, sem hlýtur stuðning alþjóðasamfélagsins.