Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, segist vona að breið stjórn Fimmstjörnu hreyfingarinnar og Lýðræðisflokksins komi á ró í þjóðfélaginu. Hin nýja ríkisstjórn nær frá hægri til vinstri og er mun jákvæðari í garð Evrópusambandsins en fráfarandi stjórn hreyfingarinnar og Norðurbandalags Matteo Salvini.
Þegar Conte hélt stefnuræðu sína í þinginu kölluðu þingmenn Norðurbandalagsins fram í og heimtuðu kosningar. Hin nýja stjórn þarf að vera samþykkt af báðum deildum þingsins og lýkur atkvæðagreiðslu þingmanna á þriðjudag.
Hin nýja ríkisstjórn mun vinda ofan af ýmsum aðgerðum fyrri stjórnar, þar á meðal hinni hörðu innflytjendastefnu sem Norðurbandalagið kom í gegn. „Við megum ekki eyða næstu mánuðum í deilur og árekstra,“ sagði Conte. Salvini hlustar ekki á það og hefur skipulagt mótmæli í október.
Vill koma á ró í ítölskum stjórnmálum
Kristinn Haukur Guðnason skrifar
