Hópuppsagnir það sem af er ári eru orðnar fleiri en allt árið í fyrra. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 á eftir verður rætt við forstjóra Vinnumálastofnunar sem telur að botninum sé ekki náð.
Við fjöllum áfram um málefni ríkislögreglustjóra í fréttatímanum en dómsmálaráðherra hefur ekki ennþá útskýrt fyrir umboðsmanni Alþingis hvers vegna Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri var ekki áminntur eftir að hann sendi tveimur fjölmiðlamönnum bréf á bréfsefni embættisins, vegna máls er varðaði hans eigin hagi.
Ýmsir kjörnir fulltrúar Repúblikana í Bandaríkjunum krefja Donald Trump forseta nú svara um samskipti hans við forseta Úkraínu og í fréttatímanum segjum við einnig frá nýjustu vendingum vegna Brexit.
Fulltrúar sex samtaka ungmenna funduðu með ráðherrum í ráðherrabústaðnum í dag og kröfuðst aðgerða í loftslagsmálum. Ungmenni um allan heim mótmæltu aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum í dag líkt og þau hafa gert undanfarnar vikur.
Þetta og margt fleira í kvöldfréttum á samtengdum rásum Stöðvar 2 og Bylgjunnar í opinni dagskrá klukkan 18:30
