Rekstrarsjóðir Gamma sem færðir voru niður á mánudag um 99% og 60% eru svokallaðir fagfjárfestasjóðir.
Í lögum um slíka sjóði kemur fram að rekstrarfélög skuli vera með eftirlitskerfi og vakta, meta og stýra áhættu einstakra eigna og eignasafns á hverjum tíma. Þá er Fjármálaeftirlitinu heimilt að setja nánari reglur um slíkt eftirlitskerfi. Mál Gamma:Novus er nú til rannsóknar hjá eftirlitinu eftir að nýir stjórnendur vísuðu málinu þangað fyrir nokkrum dögum.
Eitthvað virðist kerfinu hafa verið ábótavant en fjárfestar í Gamma:Novus hafa kallað eftir rannsókn á því hvað fór úrskeiðis hjá sjóðnum undanfarna daga. Máni Atlason framkvæmdastjóri Gamma segir afar mikilvægt að útvega nýtt fjármagn inní félagið svo hægt sé að halda áfram með verkefni en Upphaf fasteignafélag Gamma:Novus er með 277 íbúðir í byggingu.

Fréttastofa sendi fyrirspurn til lífeyrissjóða um hvort þeir eigi hlutdeildarskírteini eða skuldabréf í rekstrarsjóðunum tveimur. Ekki þurfti að senda á alla því á heimasíðum þeirra kom fram að þeir ættu ekki í sjóðnum. Fjórir lífeyrissjóðir fjárfestu í Gamma:Novus eða Gamma:Anglia en það eru Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Festa, Birta og Lífsverk.