Skaðabótamálið var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun september. Garðar G. Gíslason, lögmaður Samherja, segir stærsta hluta kröfunnar tilkominn vegna kostnaðar við lögmenn og endurskoðendur, eða hátt í 247 milljónir króna. Um 59 milljónir króna séu vegna ýmiss kostnaðar sem fyrirtækið varð fyrir. Meðal annars launakostnaðar. Þá varð fyrrverandi fjármálastjóri fyrirtækisins óvinnufær vegna kvíða og þunglyndis og glímdi við meiriháttar kulnun í starfi eftir rannsóknina.
Samherji fer fram á tíu milljónir króna í miskabætur vegna málsins.
Skaðabótamálin eru tvö þar sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, fer einnig persónulega fram á fimm milljóna króna bætur vegna lögfræðikostnaðar sem hann þurfti að leggja út fyrir. Þá fer hann fram á eina og hálfa milljón í miskabætur.
Samtals hljóða kröfur Samherja og Þorsteins gagnvart seðlabankanum upp á rúmar 322 milljónir króna.

Í nóvember í fyrra felldi Hæstiréttur Íslands úr gildi 15 milljóna króna stjórnvaldssekt sem Seðlabanki Íslands lagði á Samherja vegna meintra brota á reglum um gjaldeyrismál. Seðlabankinn hafði tvisvar sent kærur vegna meintra brota til sérstaks saksóknara, sem vísaði málunum aftur til seðlabankans, áður en bankinn sektaði fyrirtækið.