Í brýnu sló á milli lögreglu og sjálfstæðissinna í kjölfar fjöldamótmæla gegn fangelsisdómum yfir leiðtogum sjálfstæðissinna í Barcelona í dag. Hundruð ungmenna eru sögð hafa umkringt höfuðstöðvar landslögreglunnar í miðborginni og kastað steinum og flöskum að lögreglumönnum.
Átökin brutust út eftir að friðsömum mótmælum sem áætlað er að um 350.000 manns hafi tekið þátt í lauk í dag, að sögn AP-fréttastofunnar. Lögreglan lét til skarar skríða gegn grímuklæddum mótmælendum eftir að þeir hófu að kasta hlutum að lögreglumönnum. Beitti lögreglan kylfum og frauðkúlum. Mótmælendurnir kveiktu í ruslatunnum úti á götu eftir að lögreglumenn hafði bægt þeim frá lögreglustöðinni.
Fimmtán manns slösuðust í átökunum, þar á meðal ljósmyndari AP sem var sleginn með lögreglukylfu í andlitið. Héraðslögreglan í Katalóníu segir að einn lögreglumaður hafi særst alvarlega.
Mótmælin í dag beindust að þungum fangelsisdómum yfir leiðtogum katalónskra sjálfstæðissinna 14. október. Þeir voru dæmdir í allt að þrettán ára fangelsi vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði héraðsins sem þeir héldu árið 2017 í óþökk ríkisstjórnar Spánar og stjórnlagadómstóls landsins.
Til óeirða kom á hverju kvöldi í Barcelona sex nætur í röð í kjölfar fangelsisdómanna. Um fimm hundruð manns særðust í óeirðunum, um helmingur þeirra lögreglumenn og um 200 manns voru handteknir.

