Southampton vann fyrsta heimaleikinn sinn í ensku úrvalsdeildinni síðan 13. apríl þegar Watford mætti í heimsókn.
Þetta var sannkallaður botnslagur, en fyrir leikinn voru liðin í neðstu sætunum tveimur í deildinni.
Watford komst yfir á 24. mínútu þegar Ismaila Sarr skoraði sitt fyrsta úrvalsdeildarmark.
Heimamenn náðu ekki að jafna metin fyrr en á 77. mínútu og var það Danny Ings sem skoraði fyrir Southampton.
Sigurmarkið kom aðeins fimm mínútum seinna með góðu marki James Ward-Prowse, leiknum lauk með 2-1 sigri Southampton.
Southampton er nú tveimur stigum frá öruggu sæti en Watford situr sem fastast á botninum með átta stig, sex stigum frá því að komast upp úr fallsætinu.
Southampton hafði betur í botnbaráttunni
