KKÍ hefur boðað til blaðamannafundar á morgun þar sem skrifað verður undir samning við næsta landsliðsþjálfara karla.
Samningur Craig Pedersen rennur út um áramótin en í tilkynningu KKÍ kemur ekki fram hvort að landsliðsþjálfarinn sé nýr af nálinni eða samið verði áfram við Craig.
Kanadamaðurinn hefur stýrt liðinu frá árinu 2014 en Ísland hefur farið á tvö Evrópumót undir hans stjórn; í Berlín og í Finnlandi.
Mótið í Finnlandi var 2017 og mistókst íslenska liðinu að tryggja sér sæti á móti sumarsins en næstu verkefni liðsins fara fram í febrúar í undankeppni HM.
