Nýja ferjan mun fá nafnið Akranes, er 10.000 tonn og getur tekið hundrað vöruflutningavagna í hverri ferð. Fyrir rekur Smyril Like vöruflutningaferjuna Mykines, sem siglir til Þorlákshafnar, og farþega- og vöruflutningaferjuna Norrænu sem siglir til Seyðisfjarðar.
Í tilkynningu frá skipafélaginu segir að með tilkomu nýju ferjunnar verði flutningstíminn fyrir innflutning frá Danmörku og Færeyjum til Íslands styttur töluvert og þá verði boðið upp á nýja útflutningsleið, til dæmis fyrir fisk, um Danmörku til Evrópu

„Farið verður frá Danmörku á föstudagseftirmiðdegi og komið til Íslands á mánudegi og er ég spennt að sjá hvernig þessari nýju inn- og útflutningsleið verður tekið, bæði fyrir fisk frá suðvesturhorninu í gegnum Danmörku til Evrópu og allskyns inn- og útflutning til og frá Skandinavíu og meginlandinu,“ segir Linda Björk.
Systurskip Mykines
Akranes bætist við fjögurra skipa flota Smyril Line þann 20. desember 2019. Hin skipin eru Norræna, Hvítanes, Eystnes og Mykines. Akranes er systurskip Mykines sem siglir milli Þorlákshafnar og Rotterdam í Hollandi.Akranes, sem bar áður nafnið Bore Bank, var byggt árið 1998 í UMOE skipasmíðastöðinni í Noregi. Skipið er 138 metra langt, 23 metra breitt, 10.000 tonn og tekur 100 vöruflutningavagna í hverri ferð. Það var áður í eigu finnska skipafélagsins Bore, sem er hluti af Spliethoff samstæðunni og var þá í siglingum á Eystrasaltinu. Skipið verður skráð í Færeyjum og verða 24 í áhöfn.