Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, sagði að Skotland geti ekki verið fangelsað í Bretlandi gegn vilja þess af bresku ríkisstjórninni í samtali við fréttamenn breska ríkisútvarpsins.
Þá sagði hún að stórsigur skoska þjóðarflokksins í þingkosningunum sem haldnar voru í vikunni gefi henni umboð til að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. Breskir ráðherrar telja hins vegar að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki uppi á borðinu og að virða eigi þjóðaratkvæðagreiðsluna sem haldin var um málið árið 2014.

Sturgeon sagði að ef Bretland ætti að haldast í núverandi mynd þyrfti það að vera með samþykki allra sem í Bretlandi eru. Hún sagði einnig að það væri misskilningur hjá bresku ríkisstjórninni ef hún héldi að málinu væri lokið ef engin þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin. „Þetta er ein af grunnstoðum lýðræðis, þið getið ekki haldið Skotlandi í sambandinu gegn vilja þess,“ bætti hún við.
Sjá einnig: Boris Johnson andvígur þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skota
Michael Gove, þingmaður Íhaldsflokksins í Skotlandi, sagði í samtali við fréttastofu Sky að „okkur var sagt árið 2014 að sú kosning yrði val þessarar kynslóðar – við munum ekki halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði í Skotlandi.“

Skoski þjóðarflokkurinn vann stórsigur í þingkosningunum í vikunni og hrifsaði meðal annars sæti frá Verkamannaflokknum og Íhaldsflokknum í Skotlandi. Íhaldsflokkurinn vann hins vegar stórsigur á landsvísu og má gera ráð fyrir að mikil átök verði á milli skosku heimastjórnarinnar og bresku ríkisstjórnarinnar vegna kröfu Skota um aðra þjóðaratkvæðagreiðslu.
Skoska heimastjórnin vill gera samning við bresku ríkisstjórnina sem svipar til samningsins sem gerður var árið 2014, til að tryggja að útkoma þjóðaratkvæðagreiðsluna verði lögleg og lögmæt en breska ríkisstjórnin er andvíg því.
Sturgeon hefur sagt að það sé ólýðræðislegt ef Johnson tekur þjóðaratkvæðagreiðslu ekki til greina þegar flokkur hans var sigraður í kosningunni í Skotlandi en flokkurinn missti sjö af þrettán sætum. Flokkurinn hefur lýst því yfir að hann sé andvígur sjálfstæði Skota.

Sturgeon sagði í samtali við BBC að hún hafi sagt Johnson í símtali á föstudag að ef hann teldi að málinu væri lokið ef hann segði nei þá hefði hann rangt fyrir sér.
„Þetta er ein af grunnstoðum lýðræðis, þið getið ekki haldið Skotlandi í sambandinu gegn vilja þess. Þið getið ekki læst okkur inni í skáp og vonað að vandamálin hverfi.“
„Ef Bretland á að haldast í sömu mynd verður það að vera með samþykki allra. Ef Boris Johnson trúir nógu mikið á sambandið ætti hann að trúa því að það sé nóg og leyfa þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði Sturgeon.
„Skotland getur ekki verið haldið fangið af Bretlandi gegn vilja þess. Það gefur augaleið ef við eigum að kallast lýðræði.“