Ekki tókst að ljúka fyrstu umræðu um frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum á Alþingi í gærkvöldi. Frumvarpið einfaldar og flýtir afgreiðslu umsókna fólks sem þegar hefur fengið vernd í öðrum evrópuríkjum. Þingflokkur forsætisráðherra gerir fyrirvara við frumvarpið.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um útlendinga og atvinnuréttindi þeirra á Alþingi í gær. Reynsla af lögum um útlendinga frá árinu 2016 hafi leitt í ljós að nauðsynlegt væri að gera breytingar á þeim til að framkvæmd og meðferð mála væru skýr og gagnsæ.
Dómsmálaráðherra segir að dregið hafi úr umsóknum fólks frá svo kölluðum öruggum ríkjum en þeim hafi fjölgað frá fólki sem væri þegar komið með vernd í öðrum evrópuríkjum. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir harmaði breytingar í frumvarpinu nú þegar kórónuveirufaraldurinn gengi yfir heimsbyggðina.

„Þegar við vitum að flóttamannabúðir í Grikklandi eiga það vel á hættu að verða mjög illa úti í þessum faraldri á komandi mánuðum ætla hæstvirtur dómsmálaráðherra og hæstvirt ríkisstjórn að drífa sig í að auðvelda stjórnvöldum að vísa fólki beint til Grikklands aftur,“ sagði Þórhildur Sunna.
Dómsmálaráðherra sagði stjórnvöld hafa gripið til sérstakra ráðstafana vegna Covid19 faraldursins og veitt fólki leyfi til dvalar í landinu tímabundið. Enginn hafi verið sendur til Grikklands eða Ungverjalands á grundvelli Dyflinar reglugerðarinnar frá árinu 2010.
„Verndarkerfið er fyrir fólk sem er ekki með vernd. Það þarf að forgangshraða þannig svo við veitum þeim sem eru að verða fyrir ómannúðlegri meðferð og eru að flýja hér stríðsástand vernd með skilmerkilegum og hröðum hætti. Þannig er það eins í löndunum í kringum okkur,“ sagði Áslaug Arna.

Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður Vinstri grænna sagði þingflokkinn hafa sett ýmsa fyrirvara við frumvarpið þegar það var kynnt í honum.
„Sér í lagi það hvernig tekið er á málefnum fólks sem hefur hlotið alþjóðlega vernd. En þar erum við mótfallin því að innleitt verði kerfi þar sem leiðir til aukinnar sjálfvirknivæðingar í þeim efnum,“ sagði Steinunn Þóra.
Þórhildur Sunna sagðist reyna að átta sig á fyrirvara þingflokks Vinstri grænna því ýmis stjórnarfrumvörp hafi strandað vegna þess að aðrir stjórnarflokkar hleyptu þeim ekki út úr sínum röðum. Hún minnti á að í kosningastefnu Vinstri grænna segði meðal annars að Ísland þyrfi að axla ábyrgð og koma fólki til hjálpar eins og mögulegt væri, bæði með því að taka á móti fleira flóttafólki og styðja við að fólk gæti lifað með reisn annars staðar í heiminum.
„Í þessu frumvarpi þykir tilefni til að hverfa frá þeirri framkvæmd að umsóknir einstaklinga sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd séu teknar til efnislegrar meðferðar á grundvelli undantekninga um sérstök tengsl og sérstakar ástæður. Þetta er fortakslaust bann við að taka þessi mál til efnismeðferðar sem við erum að ræða hér,“ sagði Þórhildur Sunna.
Ekki tókst að ljúka fyrstu umræðu um frumvarpið í gærkvöldi.