Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur ákveðið að fella niður mál hendur Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.
Flynn játaði árið 2017 að hafa logið að fulltrúm FBI, bandarísku Alríkislögreglunnar, í tengslum við rannsókn hennar á fundi hans með sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum áður en Trump tók við embætti forseta.
Flynn var ráðgjafi Trump í kosningabaráttunni og var skipaður þjóðaröryggisráðgjafi þegar Trump tók við embætti. Flynn var sagt upp störfum tæpum mánuði síðar eftir að upp komst að hann sagði ósatt um samskipti sín við rússneskan sendiherra í aðdraganda valdaskiptanna.
BBC greinir frá því að Flynn hafi að undanförnu reynt að draga þessa játningu til baka. AP greinir frá því að grundvöllur niðurfellingar ráðuneytisins á málinu á hendur Flynn sé sá að viðtal Flynn og fulltrúa FBI hafi ekki verið framkvæmt á löglegum rannsóknargrundvelli.
Ekki væri hægt að sýna fram á með óyggjandi hætti að Flynn hafi logið. Komist hafi verið að þessari niðurstöði eftir yfirferð á öllum gögnum málsins.