Óbreytt fyrirkomulag verður á sóttvarnaraðgerðum á norðanverðum Vestfjörðum að minnsta kosti til 26. apríl næstkomandi. Núverandi aðgerðaráætlun hefur verið í gildi frá 6. apríl.
Leik- og grunnskólar verða því áfram lokaðir en börn á forgangslistum fá vistun á leikskólum og í fyrstu tveimur bekkjum grunnskóla. Samkomubannið verður áfram miðað við fimm manneskjur, en það á þó ekki við um fjölskyldur á sama heimili.
Þá er hámarksfjöldi viðskiptavina í verslunum sem eru stærri en 150 fermetrar þrjátíu manns.
Ákveðið var að framlengja aðgerðirnar að höfðu samráði við sóttvarnalækni. Það er mat aðgerðastjórnar almannavarna á Vestfjörðum að aðgerðirnar hafi skilað árangri, þó svo að enn séu ný smit að greinast. Það sé þó enn frekari ástæða til þess að fólk haldi sig heima og fylgi fyrirmælum yfirvalda.
Samkvæmt nýjustu tölum eru 65 smitaðir af kórónuveirunni sem veldur Covid-19 sjúkdómnum á Vestfjörðum.
Þá er þeim sem eru í sóttkví eða einangrun bent á að hafa samband við Rauða krossinn í síma 1717 ef þeim vantar aðstoð eða eiga erfitt.