Skoðun

Eftirkórónuhagkerfið

Þórir Guðmundsson skrifar

Tilraunir til að spá fyrir um hagkerfið eftir kórónufaraldur geta fljótt litið út eins og árleg spá völvu vikunnar. Viðburðir sem fara að spám þykja hafa verið fyrirsjáanlegir allan tímann. Spár sem rætast ekki bera í besta falli vitni um lélegar ágiskanir. En ýmislegt má samt ráða um þjóðfélagsþróun í og eftir heimsfaraldur í ljósi reynslunnar.

Þannig hefur rannsókn á efnahagslegum afleiðingum faraldursins í Bandaríkjunum leitt í ljós að það getur verið mun betra fyrir hagkerfið að reyra það niður með samkomubanni og félagsforðun heldur en gefa því lausan tauminn. Þessi niðurstaða gengur þvert gegn ríkjandi hugmyndum um stjórnvöld þurfi að velja milli hagkerfis og heilsu.

Rannsóknin sýnir fram á að kjarnastarfsemi atvinnulífsins verði fyrir þvílíkum skakkaföllum vegna kórónuveirunnar, fái hún að breiðast út óáreitt, að heildaráhrifin verði samdráttur upp á 30 prósent eða meir. Í þessari rannsókn eru geirar eins og heilbrigðisþjónusta, matvælaiðnaður, flutningar og orkuframleiðsla taldir til kjarnastarfsemi sem önnur starfsemi reiðir sig á. Þegar kjarnastarfsemin verði fyrir áfalli, svo sem þegar starfsfólk veikist eða þorir ekki að mæta í vinnuna, þá verði samdráttur í efnahagslífinu.

Inngrip betri fyrir efnahaginn

Önnur rannsókn á öðrum faraldri – spænsku veikinni 1918 í Bandaríkjunum – sýnir sömuleiðis fram á jákvæð efnahagsleg áhrif af inngripum á borð við samkomubönn og félagsforðun, sérstaklega ef stjórnvöld bregðast snemma við. Höfundar þeirrar rannsóknar sýna fram á að borgir þar sem samfélagstakmörkunum var beitt snemma hafi ekki orðið fyrir efnahagslegum skakkaföllum þeirra vegna. Borgir sem gerðu það ekki hafi orðið ver úti.

Rannsakendur birta graf þar sem borgum er raðað eftir dauðsföllum og hagvexti sem urðu í þeim á tíma faraldursins. Þær borgir sem beittu boðum og bönnum raðast þar á grafinu þar sem eru færri dauðsföll og meiri hagvöxtur en þær sem gerðu lítið eða ekkert urðu fyrir fleiri dauðsföllum og hagvöxtur var minni.

Að auki virtust borgir sem gripu inn í ástandið snemma og hraustlega vera fljótari að taka við sér árið eftir inflúensufaraldurinn. Þannig greip Seattle fljótt og vel inn í faraldurinn og þar urðu tiltölulega fá dauðsföll og atvinna jókst. Pittsburgh beitti minni ígripum og þar urðu mörg dauðsföll og störfum fjölgaði lítið.

90 prósent hagkerfið

Hið virta tímarit The Economist hefur rýnt í þjóðfélagsleg áhrif yfirstandandi kórónuveirufaraldurs með verkfærum hagfræðinnar. Tímaritið telur meðal annars að hætta sé á að faraldurinn leiði til samfélags sem verði brothættara, ójafnara og með minni nýsköpun. Tímaritið kallar þetta 90 prósent hagkerfið.

Í 90 prósent hagkerfinu, sem Economist óttast að taki við eftir faraldurinn, er meiri ótti og varkárni ríkjandi, fólk er ólíklegra til að ferðast og fara á skemmtistaði, hittist minna og þegar það stundar heimavinnu þá njóta færri hins skapandi vinnuumhverfis sem verður til við nánd milli samstarfsfólks.

Þó að þjóðir heims séu á misjöfnum stað í framgangi faraldursins þá má finna vísbendingar um þessa þróun víða. Í Kína er ýmislegt að færast í fyrra horf en alls ekki allt. Bjórsala er 40% af því sem hún var á sama tíma í fyrra, veitingahús fá færri viðskiptavini og hótelbóknir hafa hrunið. Í einmitt þessum geirum viðskiptalífsins starfa margir á lágmarkslaunum, fólk sem er ólíklegra til að geta haldið vinnu sinni þegar aðstæður breytast – fólk sem ekki getur stundað sína vinnu heima.

Heitið sem Economist gefur þessu eftirveiruþjóðfélagi, 90 prósent hagkerfið, er einmitt dregið af þeirri ályktun að áfallið í geirum sem reiða sig á nærveru og geta illa þrifist með félagsforðun geti numið um 10 prósentum af hagkerfinu. Þá reiknar tímaritið með því að félagsforðun muni ekki til lengdar nema tveimur metrum, eins og nú er, heldur að hún verði sem nemur armslengd eða svo.

Tímaritið bendir á hverfiskrána sem dæmi um það að lög og reglur dugi ekki endilega til að koma hjólum alls efnahagslífsins af stað. Þó að reglur heimili fólki að fara á skemmtistaði þá hjálpi það lítið ef fólk er of hrætt til að sækja í margmennið.

Almenningur varkár

Um allan heim taka stjórnvöld um þessar mundir afar mismunandi skref í átt að afléttun á hömlum. Sömuleiðis er mismunandi hvort almenningur fylgir sínum yfirvöldum að máli. Þó að ætla mætti að fólk vildi flest geta farið í vinnu og út að borða sem allra fyrst þá eru ekkert allir eindregið á þeirri skoðun að það eigi að setja allt í gang nú þegar.

Í Bretlandi má sjá merki þess að stjórnvöld séu á undan almenningi í viðleitni sinni til að koma gangverki efnahagslífsins af stað á ný. Þar er ríkisstjórn Boris Johnsons forsætisráðherra í miklum afléttingarfasa samkomubanns en nú bregður svo við að borgarstjórar og verkalýðsfélög snúast þver gegn frekari opnunum.

Sumir borgarstjórar segjast ekki munu leyfa skólastarf að nýju 1. júní, eins og ríkisstjórnin vill. Þeir segja að betra væri að viðhalda gamla slagorðinu „Verið heima“, fremur en að taka upp nýtt og óskýrara slagorð um að vera á varðbergi. Ný skoðanakönnun leiðir í ljós að meirihluta fólks finnst nýja slagorðið óskýrt um það hvern það megi hitta utan heimilisins. Samfara áætlunum um afléttingar á hömlum minnkaði stuðningur við aðgerðir stjórnvalda um níu prósent á einni viku.

Og hvaða ályktanir má draga af þessu? Jú, hugmyndin um að valið standi um peningana eða lífið – hagkerfið eða heilsu – er röng. Þeir sem grípa fljótt til aðgerða sem verja heilsu fólks vernda með því hagkerfið sömuleiðis. Í framhaldinu er sömuleiðis ekki hægt að búast við að eftir afléttingar verði bara allt í lagi, jafnvel þó að kórónuveiran spretti ekki upp á ný. Óttinn einn getur valdið töluverðum hagrænum skaða sem heftir nýsköpun, ýtir undir ójöfnuð og kemur niður á þeim sem verst skyldi. Og almenningur virðist skilja betur en sumar ríkisstjórnir að þeir sem vernda heilsu, vernda hag.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin réttindi til fram­tíðar

Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson skrifar

Sjá meira


×