Colin Kaepernick, fyrrum leikstjórnandi San Francisco 49ers hefur lofað að mótmælendum í Minneapolis, og víðar í Bandaríkjunum, lögfræðiaðstoð í gegnum Know Your Rights herferð sína. Mótmæli og óeirðir hafa átt sér stað eftir að lögreglan í Minneapolis myrti George Floyd nýverið.
Hinn 32 ára gamli Kaepernick hefur ekki leikið í NFL-deildinni síðan árið 2016 en hann fékk þá ekki áframhaldandi samning hjá 49ers og í kjölfarið vildi ekkert lið deildarinnar semja við hann. Þykir það undarlegt þar sem frammistaða hans á vellinum hafði ekki dalað og hann var aðeins 28 ára gamall.
Kaepernick hafði hins vegar orðið frægur fyrir það eitt að krjúpa er bandaríski þjóðsöngurinn var spilaður fyrir leiki 49ers. Með því var hann að mótmæla, friðsamlega, lögregluofbeldi í Bandaríkjunum.
Í kjölfarið var honum ýtt úr NFL-deildinni og rigndi fúkyrðum yfir hann hvert sem hann fór. Til að mynda frá forseta Bandaríkjanna, Donald Trump.
Kaepernick hefur verið dyggur stuðningsmaður réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum og hefur nú lofað þeim mótmælendum í Minneapolis, og mögulega víðar, lögfræðiaðstoð ef þess þarf.