Samgönguráðherra segir stefnt að því að niðurgreiðslur innanlandsflugs til íbúa landsbyggðarinnar, samkvæmt skosku leiðinni svokölluðu, hefjist í haustbyrjun. Miðað verður við að hver íbúi fái fjörutíu prósenta styrk fyrir allt að tveimur ferðum fram til áramóta. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.
Farþegarnir kvarta undan háum fargjöldum og ráðamenn flugfélaganna undan taprekstri. Niðurstaða stjórnvalda er að fara skosku leiðina.

„Við myndum byrja vonandi í haust. Það er enn unnið samkvæmt því að annaðhvort 1. september eða 1. október þá hefjist þetta,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Niðurgreiðslurnar munu ná til þeirra sem búa í minnst 270 kílómetra fjarlægð frá Reykjavík og í eyjum án vegasambands og er miðað allt að fjörutíu prósenta styrk fyrir ákveðnum fjölda ferða á ári.
„Með stuðningi við tvo leggi á þessu ári og síðan þá meira á næsta ári þar sem þá væri heilt ár undir. Og síðan eftir atvikum, hvernig þetta gengur, þá sjáum við fyrir okkur, alveg eins og fyrirmyndin skoska, í Skotlandi, að geta þá jafnvel eflt þetta enn frekar ef að eftirspurn verður,“ segir ráðherrann.

Niðurgreiðslurnar þykja sanngirnismál þar sem innanlandsflugið hefur lengi þurft að keppa við niðurgreiddar ferjusiglingar og niðurgreiddar strætóferðir. Þá er margvísleg þjónusta ríkisins eingöngu í boði á höfuðborgarsvæðinu.
„Og auðvitað að ýta undir meira jafnræði fyrir íbúana, sem þurfa oft að sækja þjónustu hingað. En einnig eru við auðvitað að horfa á vonandi í vaxandi mæli á störf án staðsetningar og meira á ferðalög fólk. Og þá er mjög gott að efla innanlandsflugið því það er mjög umhverfisvænn samgöngumáti,“ segir Sigurður Ingi.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: