Fjallað er um Airbus-þotur í rekstri íslensku flugfélaganna í níunda þætti Flugþjóðarinnar á Stöð 2. Eftir að Icelandair valdi þær sem arftaka 757-vélanna stefnir í að þotur frá evrópska flugvélaframleiðandnum verði burðarásinn í farþegaflugi til og frá Íslandi.
Íslendingar höfðu áður kynnst Airbus-þotum í þjónustu Wow Air og Play. Íslandsflug varð þó fyrst íslenskra flugfélaga til að reka þotur frá Airbus og skrá þær á Íslandi.

Í þættinum kemur fram að Airbus hafi verið búið að ganga lengi á eftir Icelandair. Aðstoðarforstjóri Airbus, Wouter Van Wersch, segir fyrirtækið hafa í langan tíma haft það markmið að vinna með Icelandair.
Þessi nýja stefnumörkun Icelandair var staðfest með undirritun samnings Icelandair og Airbus sumarið 2023 um kaup og kauprétt á allt að 25 þotum af gerðinni Airbus A321 XLR. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, lýsti samningnum sem einni stærstu ákvörðun sem félagið hefði tekið í sögu sinni.

XLR stendur fyrir „extra long range“ en fyrstu þotur þeirra gerðar fær Icelandair þó ekki fyrr en árið 2029. Fram að afhendingu þeirra leigir félagið næstu árin þotur af gerðinni A321LR, eða „long range“.
Flugdrægi XLR verður 8.700 kílómetrar. Þótt flugdrægi LR-vélanna sé 1.300 kílómetrum styttra er það samt 7.400 kílómetrar, sem er nærri 200 kílómetrum lengra en gömlu Boeing 757-vélanna. Hér er því komið tæki sem getur leyst þær endanlega af hólmi í rekstri Icelandair.
Hér má tíu mínútna upphafskafla þáttarins:
Áskrifendur Stöðvar 2 og Stöðvar 2+ geta séð þættina um Flugþjóðina í streymisveitu Stöðvar 2 hvar og hvenær sem er.
Í næsta þætti þriðjudagskvöldið 8. apríl verður fjallað um íslensku flugnýlenduna í Lúxemborg.