Skoðun

Takk Guðni

Einar Bárðarson skrifar

Velvild, virðing og ábyrgð eru gildi sem ég reyni að rækta hjá sjálfum mér og eru þau gildi sem ég leita eftir í öðrum. Við erum heppin með forseta og ekki síður forsetafrú. Bæði eru þau hrein og bein og koma til dyranna eins og þau eru klædd og af vinsemd, virðingu og ábyrgð.

Þau ganga fremst meðal jafningja og hjá þeim finnum við samkennd á erfiðum tímum, hvatningu þegar reynir á en þess á milli finnur maður viðleitni þeirra til að vekja athygli á því sem vel er gert og lyfta undir málstaði þeirra sem minna mega sín.

Árlega hefur hópurinn Plokk á Íslandi sem ég er þátttakandi í staðið fyrir stórum hreinsunardegi á vorin. Núna í lok apríl, þar sem ég stóð á spítalalóðinni við Landspítalann í Fossvogi að týna rusl, til heiðurs heilbrigðis starfstéttanna, í tveggja metra fjarlægð frá forsetahjónum sem einnig voru að týna rusl. Þá hugsaði ég; er hægt að biðja um betra fólk á Bessastaði?

Síðasta ár hef ég einnig unnið að endurheimt votlendis. Endurheimt lungna Íslands eins og Halldór Laxness kallaði mýrarnar okkar. Með endurheimt stöðvum við losun CO2 ígilda þurrlendisins. Enn og aftur er Guðni Th. Jóhannesson þar í farabroddi meðal jafningja að fræða almenning og hvetja okkur á vettvangi til dáða af velvild, virðingu og ábyrgð.

Þá treysti ég Guðna Th. Jóhannessyni fyrir embætti forseta Íslands. Á laugardaginn kýs ég Guðna Th. Jóhannesson til embættis forseta Íslands.

Höfundur er fram­kvæmda­stjóri Vot­lend­is­sjóðs.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×