Þjálfarar og starfsfólk meistaraflokks kvenna hjá KR eru laus úr sóttkví. Aðstoðarþjálfari KR, Aníta Lísa Svansdóttir, greindi frá þessu á Twitter.
Leikmaður Breiðabliks greindist með kórónuveiruna á fimmtudaginn í síðustu viku. Tveimur dögum áður hafði liðið mætt KR í Pepsi Max-deild kvenna. Blikar unnu leikinn, 6-0.
Allir leikmenn og starfsfólk KR fóru í sóttkví eftir að smitið greindist. En eftir að smitrakningarteymi skoðaði leikinn gaumgæfilega var ákveðið að þjálfarar og starfsfólk KR þyrftu ekki að vera í sóttkví. Sömu sögu er að segja að af þeim varamönnum sem komu ekki inn á í leiknum.
Að gefnu tilefni þá voru þjálfarateymi og starfsfólk KR losað úr sóttkví. Smitrakningarteymið skoðaði leikinn vel og losaði líka ónotaði varamenn frá okkur. Allir að fylgja öllum reglum #fotboltinet
— Anita Lisa (@anita_lisa) June 29, 2020
Þrettán leikmenn KR eru í sóttkví og ákveðið hefur verið að fresta næstu tveimur leikjum liðsins í Pepsi Max-deildinni, gegn FH og Selfossi.
Alls er búið að fresta sex leikjum í Pepsi Max-deild kvenna vegna kórónuveirunnar. Smit hefur einnig greinst hjá Fylki og allir leikmenn liðsins komnir í sóttkví.