ÍBV mætir í Breiðholtið í stórleik umferðarinnar í Lengjudeildinni þar sem þeir mæta heimamönnum í Leikni. Leikurinn verður í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport og hefst hann klukkan 18:00.
Stöð 2 Sport sýnir annan leik sumarsins úr Lengjudeildinni. Síðast vann Leiknir Reykjavík frábæran 2-1 útisigur á Keflavík og nú bíður þeirra ærið verkefni. Eyjamenn með Gary Martin í broddi fylkingar mæta upp í Efra-Breiðholt til að taka þrjú stig.
ÍBV er sem stendur með fullt hús stiga – ásamt bæði Fram og Þór Akureyri – þegar þremur umferðum er lokið. Leiknir Reykjavík kemur þar á eftir í 4. sæti deildarinnar með sjö stig af níu mögulegum.
Gamla brýnið Bjarni Ólafur Eiríksson mun leiða lið ÍBV út á völlinn en þessi fyrrum leikmaður Vals er fyrirliði gestanna. Þá er Gary John Martin – fyrrum leikmaður ÍA, KR, Víking og Vals – að sjálfsögðu í framlínu liðsins.
Þjálfari ÍBV er svo markamaskínan fyrrverandi Helgi Sigurðsson.
Heimamenn þarf vart að kynna en Vísir fór í saumana á liðinu fyrir síðustu umferð þar sem leikur þeirra við Keflavík var einnig sýndur á Stöð 2 Sport.
Leikurinn hefst eins og áður sagði klukkan 18:00 og verður í opinni dagskrá Stöðvar 2 Sport.