Enn virðist sem Andrzej Duda forseti Póllands muni bera sigur úr býtum í forsetakosningunum sem fram fóru í dag. Samkvæmt nýjustu útgönguspám sem birtar voru skömmu eftir miðnætti í Póllandi fékk Duda 50,8 prósent atkvæða en mótframbjóðandi hans, Rafał Trzaskowski borgarstjóri Varsjár, 49,2 prósent atkvæða.
Munurinn eykst lítillega milli frambjóðendanna frá fyrstu útgönguspám, sem birtar voru rétt eftir að kjörstöðum var lokað í Póllandi klukkan 19 að íslenskum tíma. Þá var Duda með 50,4 prósent atkvæða en Trzaskowski með 49,6.
Gert er ráð fyrir að opinberar niðurstöður kosninganna verði kynntar á morgun en í síðasta lagi á miðvikudag. Enn er beðið eftir atkvæðum þeirra Pólverja sem kusu erlendis.
Duda ávarpaði stuðningsmenn sína eftir að síðari útgönguspár voru birtar í kvöld og þakkaði öllum sem kusu hann. Trzaskowski lagði áherslu á það við stuðningsmenn sína í kvöld að niðurstöður úr pólskum forsetakosningum hafi líklega aldrei verið svo jafnar. „Við höfum aldrei fundið jafnvel fyrir valdinu sem fylgir atkvæðum okkar,“ sagði Trzaskowski.