Útlit er fyrir að Andrzej Duda, sitjandi forseti Póllands, hafi borið sigurorð af Rafal Trzaskowski í forsetakosningunum þar í landi. Sigurinn virðist vera afar naumur, en Duda hlaut að lokum rúmlega 51 prósent atkvæða. Enn á eftir að telja lítinn hluta þeirra, en þau eru ekki talin geta haft áhrif á niðurstöðurnar.
Þetta kemur fram á vef BBC.
Mjótt var á munum í skoðanakönnunum í aðdraganda kosninganna en kjörsókn þótti afar góð. 68,2 prósent mættu á kjörstað og er það besta kjörsókn sem hefur sést í landinu frá falli kommúnismans árið 1989.
Frambjóðendurnir buðu upp á mismunandi framtíðarsýn til næstu fimm ára. Trzaskowski er öllu frjálslyndari, til að mynda í afstöðu sinni til málefna kvenna og hinseginfólks. Duda er fyrrverandi þingmaður stjórnarflokksins Laga og réttlætis og frekar íhaldssamur í áðurnefndum málaflokkum.
Í kosningabaráttunni beindi Duda sjónum sínum að réttindabaráttu hinsegin fólks og lofaði meðal annars að lögleiða bann við samkynja hjónaböndum, ættleiðingum hinsegin fólks og bann gegn hinsegin fræðslu í skólum. Sagði hann réttindabaráttuna grafa undan virðingu og umburðarlyndi og að hún væri skaðleg mannkyninu.
Duda ávarpaði stuðningsmenn sína eftir að síðari útgönguspár voru birtar í gærkvöldi og þakkaði öllum sem kusu hann. Trzaskowski lagði áherslu á það við stuðningsmenn sína í kvöld að niðurstöður úr pólskum forsetakosningum hafi líklega aldrei verið svo jafnar.
„Við höfum aldrei fundið jafnvel fyrir valdinu sem fylgir atkvæðum okkar,“ sagði Trzaskowski.