Landsliðskonan Fanndís Friðriksdóttir leikur ekki með Íslandsmeisturum Vals í stórleiknum gegn Breiðabliki í kvöld þar sem hún er ólétt.
Þetta kom fram í hjá Svövu Kristínu Gretarsdóttur í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld. Fanndís er kærasta Eyjólfs Héðinssonar, leikmanns Stjörnunnar, og eiga þau von á sínu fyrsta barni.
Fanndís, sem á að baki 109 A-landsleiki og hefur skorað í þeim 17 mörk, hefur ekkert komið við sögu í síðustu þremur leikjum Vals og nú er ljóst að hún mun ekki spila meira með liðinu á þessu ári. Þar er því stórt skarð fyrir skildi hjá meisturunum.
Fanndís lék alla 18 deildarleiki Vals á meistaraárinu í fyrra og skoraði þá sjö mörk. Alls hefur hún skorað 107 mörk í 204 leikjum í efstu deild.
Fanndís lék alla þrjá leiki Íslands í undankeppni EM síðasta haust en verður ekki með liðinu þegar undankeppninni lýkur í haust og í vetur með fimm leikjum. Ísland mætir næst Lettlandi 17. september og svo Svíþjóð fimm dögum síðar, og á svo eftir útileiki við Svíþjóð, Slóvakíu og Ungverjaland en undankeppninni lýkur 1. desember.