Fólki sem greinst hefur með kórónuveiruna í Færeyjum hefur fjölgað gríðarlega síðustu daga. 38 greindust með virkt smit í gær en aldrei hafa fleiri greinst á einum degi í Færeyjum. 54 hafa nú greinst með veiruna á þremur dögum í Færeyjum.
Heilbrigðisyfirvöld í Færeyjum segja stöðuna grafalvarlega, veiran breiðist hraðar út í Færeyjum en í nokkru öðru Norðurlandanna. 900 Færeyingar voru sendir í sýnatöku á miðvikudag en enn hafa niðurstöður ekki borist í öllum tilfella. Gríðarlega langar raðir voru fyrir utan sjúkrahúsin þrjú í Færeyjum á meðan fólk beið þess að komast í sýnatöku.
Að sögn heilbrigðisyfirvalda hafa öll smitin verið rakin til sama upprunans en enn er ekki búið að greina hvernig veiran hafi borist í samfélagið. Á upplýsingafundi greindi landlæknir Færeyja frá því að margir hinna smituðu hafi verið á Ólafsvökunni, þjóðhátíð Færeyja, í lok júlí. Í byrjun síðustu viku greindust þrír með veiruna en þeir höfðu allir verið viðstaddir Ólafsvöku.
Sjá einnig: Þrír Ólafsvökugestir greindust með Covid
Samkvæmt fréttastofu Fonyhedsbureau svara smitin 54 sem greinst hafa í Færeyjum síðustu þrját daga til þess að 103,8 af hverjum 100 þúsund íbúum séu smitaðir. Þá hafi innanlandssmit í Færeyjum ekki greinst í rúma þrjá mánuði þar til nú í vikunni.
Mikil áhersla er lögð á sýnatöku í Færeyjum og að auka aðgengi að skimun fyrir veirunni.