Handboltalið Valsmanna nýtir EM-fríið í að fara í æfingaferð hinum megin á hnöttinn. Valsmenn segja frá því á fésbókarsíðu sinni að karlalið félagsins sé komið til Japans.
Valsmenn spiluðu sinn síðasta leik í Olís deild karla 15. desember síðastliðinn og næsti leikur verður ekki fyrr en 28. janúar þegar þeir heimsækja Eyjamenn.
„Í gær ferðuðust strákarnir í meistaraflokki til Japan þar sem þeir verða við æfingar næstu vikuna,“ segir á fésbókarsíðu Valsmanna en ferðin er farin í boði Handknattleikssambands Japans.
Það tók Valsliðið sólarhring að ferðast til Japans en liðið fór strax við komuna á sameiginlega æfingu með japanska landsliðinu.
„Það er mikil ævintýra vika framundan og við munum að sjálfsögðu birta myndir og pistla daglega og leyfa ykkur að fylgjast með ferðinni,“ segir í fréttinni á fésbókarsíðu Vals.
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá fyrstu æfingu Valsmanna.

