Rómverjar byrja nýtt ár ekki með stæl en þeir fengu kjörið tækifæri til þess þegar þeir fengu Torino í heimsókn í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Roma þurfti á sigri að halda til að þjarma að þremur efstu liðunum en ítalski markahrókurinn Andrea Belotti sá til þess að Roma fékk ekkert út úr leik kvöldsins.
Belotti kom Torino í forystu á lokamínútu fyrri hálfleiks og tvöfaldaði svo forystuna skömmu áður en flautað var til leiksloka. Lokatölur 0-2 fyrir Torino.
Á sama tíma í Frakklandi átti PSG ekki í neinum vandræðum með neðri deildar lið Linas Montlhery í franska bikarnum. Edinson Cavani (2), Pablo Sarabia (2), Eric Choupo-Moting og Adil Aouchiche sáu um markaskorun í 0-6 sigri.