Frans páfi hefur beðist afsökunar á að hafa slegið í hönd konu þar sem hún reyndi að toga hann til sín á Péturstorginu í Páfagarði á gamlársdag.
Páfi sló í tvígang til konunnar, en atvikið náðist á myndband og hefur farið í mikla dreifingu á netinu. Páfi var þar að heilsa fólki á torginu.
WATCH: Disgruntled Pope Francis pulls himself free from a woman's clutch in Vatican City https://t.co/2nap3R0iQ4pic.twitter.com/tubJ1xmaxu
— Reuters (@Reuters) January 1, 2020
Í nýársprédikun sinni baðst páfi afsökunar og viðurkenndi að hann hafi þarna misst þolinmæðina. „Við missum oft þolinmæðina. Það á einnig við um mig. Ég biðst afsökunar á því slæma fordæmi sem ég sýndi í gær.“
Í prédikun sinni ræddi páfi meðal annars ofbeldi gegn konum og guðlast. „Þar sem við óskum þess að flétta hluttekningu inn í okkar tíma verðum við að byrja upp á nýtt þegar kemur að konum,“ sagði páfinn. Lagði hann áherslu á að konur væru uppspretta lífs.