Skoðun

Mikil uppbygging í þágu fatlaðs fólks í Reykjavík

Elín Oddný Sigurðardóttir skrifar

Húsnæðismál eru brýn velferðarmál. Mikið hefur áunnist í réttindabaráttu fatlaðs fólks síðustu ár. En ljóst var strax árið 2011, þegar sveitarfélög tóku yfir málaflokkinn,  að þörf var á gríðarlegri uppbyggingu í búsetuúrræðum fatlaðs fólks, enda hafði málaflokkurinn verði vanræktur um langt skeið.

Þegar ég tók tímabundið við formennsku í velferðarráði í upphafi árs 2014 lagði ég áherslu á að framkvæma fyrstu heildstæðu þarfagreininguna á húsnæðisþörf fatlaðs fólks í Reykjavík. Árið 2016 var síðan samþykkt ákveðin neyðaruppbyggingaráætlun til að bregðast við þeim bráðavanda sem uppi varð. Sú áætlun gilti til 2018 og komst að fullu til framkvæmda. Árið 2017 var síðan samþykkt samhljóma uppbyggingaráætlun í húsnæðismálum fatlaðra sem gildir til ársins 2030. 

Ljóst er að vandinn var mikill og uppsafnaður, en þó að verkefnin séu ærin og umfangsmikil dugar ekki að leggja árar í bát. Vinstri græn í borginni höfðu kjark til að setja búsetumál fatlaðra á oddinn og tryggja fullt fjármagn til að fylgja eftir metnaðarfullri uppbyggingaráætlun í málaflokknum allt til ársins 2030. Á árunum 2016-2019  hefur sértækum búsetuúrræðum fjölgað um 71 í Reykjavík. Á rúmlega tveimur árum bíða 48 færri eftir sértæku húsnæði auk þess sem 38 einstaklingar hafa fengið milliflutning í nýtt og betra húsnæði. Meðal annars samhliða innleiðingu áætlunar um niðurlagningu herbergjasambýla. Til stendur að fjölga íbúðum fyrir fatlað fólk í Reykjavík um allt að 183 til ársins 2030.

Við Vinstri græn munum áfram vinna að því að tryggja öllum viðeigandi húsnæði óháð fötlun eða félagslegri stöðu. Samhliða mikilli uppbyggingu í húsnæðismálum fatlaðs fólks hefur orðið mikil breyting á allri þjónustu við fatlað fólk, m.a vegna nýrra laga. Unnið er að því að auka val fatlaðs fólks þegar kemur að búsetu og þjónustu og tryggja fólki þjónustu óháð búsetuformi. Þjónusta út frá kjarna, færanleg búsetuteymi, NPA og öflug stuðningsþjónusta eru nú í mikilli framþróun til að mæta kröfum nútímans um að allir geti lifað með reisn í okkar samfélagi.

Elín Oddný Sigurðardóttir, varaborgarfulltrúi Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×