Forstjóri Landsvirkjunar segir óviðeigandi af Rio Tinto að setja fram afarkosti áður en viðræður um raforkuverð hefjast milli fyrirtækjanna. Hann segir Rio Tinto beita óboðlegri samningatækni en Landsvirkjun hefur formlega óskað eftir því að trúnaði um raforkusamninginn verði aflétt.
Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar segir Rio tinto beita samningatækni og hótunum í viðræðum fyrirtækjanna sem varla sé boðlegt hér á landi. Rio Tinto hefur tilkynnt að til skoðunar sé hvort álverinu í Straumsvík verði mögulega lokað.
„Ég dreg þá ályktun því þeir koma með þessar yfirlýsingar sem koma okkur í opna skjöldu. Gera það áður en viðræður hefjast. Ég teldi eðlilegt ef beðið væri með þær þar til viðræum væri lokið. Þetta er afar óvenjulegt að þegar fyrirtæki byrja að ræða saman þá tel ég afar óeðlilegt þegar annar aðilinn setji afarkosti og á margan hátt óviðeigandi,“ sagði Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar.
Landsvirkjun hefur formlega óskað eftir því að trúnaði um raforkusamninga verði aflétt.
„Við sendum bréfið í síðustu viku og við teljum að því meira sem gagnsæið er því betra. Það hefur verið mikil umræða um innihald samningsins og fólk hefur verið að draga ályktanir sem eru ekki réttar þannig að við teljum hagstætt fyrir alla og gott fyrir samfélagið aðþetta sé opinbert,“ sagði Hörður.

Landsvirkjun hefur þó ekki óskað eftir því að aðrir álframleiðendur aflétti trúnaði.
„Við erum eingöngu í þessum viðræðum við Rio Tinto og umræðurnar hafa verði um þá og þetta er líka orðinn 10 ára gamall samningur og viðskiptalega séð teljum við að það skipti kannski ekki öllu máli að það sé gert opinbert en við teljum það mikilvægt vegna þessara umræðu,“ sagði Hörður.
Fulltrúar Rio Tinto gátu ekki veitt viðtal vegna málsins í dag. Í skriflegu erindi frá upplýsingafulltrúa fyrirtækisins kemur fram að samhugur er um að gagnsæi verði um raforkuverð. Raforkuverð til álversins í Staumsvík sé ekki samkeppnishæft, hvorki á Íslandi néí alþjóðlegu samhengi. Því sé tap á rekstrinum og verið svo um fyrirsjáanlega framtíð ef ekkert breytist.