Topplið 2. deildar karla í knattspyrnu unnu bæði leiki sína í kvöld. Þar með styrktu þau stöðu sína á toppi deildarinnar.
Kórdrengir unnu góðan 2-1 heimasigur á Haukum í kvöld. Þá vann Selfoss 0-1 útisigur á Fjarðabyggð þökk sé marki Þorsteins Arons Antonssonar í fyrri hálfleik.
Önnur úrslit fóru á þá leið að Kári vann 2-1 sigur á ÍR í Breiðholtinu og Víðir gerði 2-2 jafntefli við Dalvík/Reyni í Garðinum.
Þegar 14 umferðum er lokið þá eru Kórdrengir og Selfyssingar á toppi deildarinnar með 31 stig, fjórum stigum meira en Njarðvík sem eru í 3. sætinu. Þar á eftir eru Þróttur Vogum með 24 stig á meðan Haukar eru í 5. sæti með 24 stig.

Dalvík/Reynir og Völsungur eru sem fyrr í fallsæti. Dalvíkingar með níu stig og Húsvíkingar með sjö. Þar fyrir ofan sitja ÍR og Víðir bæði með 13 stig.