Skoðun

Skólaheilsugæsla mikilvæg þjónusta við grunnskólabörn

Elín Oddný Sigurðardóttir skrifar

Skólaheilsugæslu er sinnt af Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Reglulega kemur fram umræða um mikilvægi öflugrar skólaheilsugæslu til að sinna margvíslegri heilbrigðisþjónustu við börn. Ljóst er að skólahjúkrunarfræðingar sinna margvíslegum mikilvægum verkefnum bæði innan skólanna og í nærsamfélaginu. Meðal verkefna þeirra er að sinna forvörnum og heilsuelfingu grunnskólabarna í víðum skilningi.

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum að vekja athygli Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins á stöðu skólaheilsugæslu í Reykjavík. Á fundi Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarstjórnar 2019 lögðu fulltrúar ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða fram tillögu þess efnis að gerðar verði ráðstafanir til að auka viðveru hjúkrunarfræðinga í grunnskólum borgarinnar. Í kjölfar tillögunnar var óskað eftir upplýsingum frá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins um stöðugildi hjúkrunarfræðinga í skólum borgarinnar. Samkvæmt svörum frá heilsugæslunni eru dæmi um að fjölmargir skólar í Reykjavík uppfylli ekki viðmið Heilsugæslunnar um að 650 nemendur séu að baki hverju fullu stöðugildi skólahjúkrunarfræðings. Í gögnum frá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins eru dæmi um að ríflega þúsund nemendur séu að baki hverju stöðugildi. Ljóst er af þessum tölum að viðmiðum um nemendafjölda að baki fullu stöðugildi skólahjúkrunarfræðings er víða ábótavant. Mikilvægt er að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins nýti fyrirliggjandi gögn til úrbóta og fjölgi skólahjúkrunarfræðingum þar sem þess gerist þörf til að uppfylla viðmið um nemendafjölda. Ljóst er að skólahjúkrunarfræðingar sinna mikilvægri þjónustu við nemendur í grunnskólum en í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 og reglugerð um heilsugæslustöðvar nr. 787/2007 er tiltekið að þjónusta skólahjúkrunarfræðinga sé á ábyrgð heilsugæslunnar á hverjum stað.

Mikilvægt er að Heilsugæsla Höfðuborgarsvæðisins sé meðvituð um þessa stöðu og nýti fyrirliggjandi gögn til að grípa til viðeigandi aðgerða til úrbóta sem fyrst þannig að uppfylla megi viðmið um nemendafjölda. Einnig er mikilvægt að það eigi sér stað samtal milli Heilsugæslu og skólayfirvalda um verkaskiptingu og sameiginlega sýn á verkefnin framundan. Mikilvægt er, ekki síst á þessum fordæmalausu tímum, að fullnægjandi skólaheilsugæsla sé til staðar í öllum skólum borgarinnar og að jafnræði nemenda að þessarri mikilvægu þjónustu sé tryggt í hvívetna.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×