Bandaríska úrvalsdeildarliðið Inter Miami hefur gengið frá samningum við 35 ára gamla Argentínumanninn Federico Higuain.
Þar hittir hann fyrir yngri bróður sinn, Gonzalo Higuain, sem gekk nýverið í raðir Inter Miami frá Juventus en þrjú ár eru á milli bræðranna sem ólust upp saman hjá River Plate og náðu að leika nokkra leiki saman með argentínska stórveldinu áður en þeir yfirgáfu heimalandið árið 2007.
Official: Federico Higuaín
— Inter Miami CF (@InterMiamiCF) October 10, 2020
Veteran midfielder joins #InterMiamiCF in a trade with D.C. United, and will join his brother Gonzalo!
Gonzalo gekk í raðir Real Madrid í byrjun árs 2007 og Federico hélt til Evrópu skömmu síðar þegar hann samdi við Besiktas í Tyrklandi.
Þeim bræðrum gekk misvel að fóta sig í Evrópu. Á meðan Gonzalo hefur raðað inn mörkum fyrir Real Madrid, Napoli, Juventus, AC Milan og Chelsea fann Federico fjölina í MLS deildinni í Bandaríkjunum. Hann hefur leikið fyrir Columbus Crew stærstan hluta ferils síns en lék síðast fyrir DC United.
Inter Miami, sem er í eigu David Beckham, er á sínu fyrsta ári í MLS deildinni og er í neðri hlutanum í Austurdeildinni en liðið fékk Blaise Matuidi og Gonzalo Higuain til sín á miðju tímabili.