Fáir lýtalæknar hafa skilað umbeðnum gögnum um starfsemi sína til landlæknis á undanförnum árum. Embætti landlæknis hefur send heilbrigðisráðuneytinu erindi vegna upplýsingaskortsins og er málið nú til skoðunar í ráðuneytinu.
Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Líneikar Önnu Sævarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.
Líneik lagði fram fyrirspurn á Alþingi þar sem spurt er hvort ráðherra telji lög um upplýsingaskyldu lýtalækna nægilega skýr.
Í svarinu segir að sjálfstætt starfandi sérfræðingar eigi lögum samkvæmt að standa skil á samskiptaskrá. Það hafi verið mat embættis landlæknis að skráningin sé nauðsynleg vegna skipulagningar heilbrigðisþjónustu og eftirlits.
Samkvæmt landlækni hafi hluti sjálfstætt starfandi sérfræðilækna ekki skilað gögnum í samskiptaskrána. „Embætti landlæknis hefur sent heilbrigðisráðuneytinu erindi vegna þessa sem nú er til skoðunar í ráðuneytinu,“ segir í svarinu.
Enginn brást við beiðni um gögn frá 2018
Þá segir að samkvæmt nýjustu tölum séu hér á landi starfandi þrettán lýtaskurðlæknar. Á undanförnum árum hafi á bilinu þrír til fimm lýtaskurðlæknar skilað inn gögnum til landlæknis.
Síðast var kallað eftir gögnum frá sjálfstætt starfandi sérfræðingum á árinu 2019, fyrir árin 2017 og 2018. Fimm lýtalæknar skiluðu inn gögnum fyrir árið 2017 og náðu þau til alls 6.922 samskipta við 3.407 einstaklinga.
Í þeim gögnum sem hafi verið send inn undanfarin ár hafi þó aðeins verið upplýsingar um sjúkdómsgreiningar fyrir hluta samskiptanna „en þær upplýsingar eru forsenda þess að gögnin nýtist sem skyldi.“
Í gögnunum fyrir árið 2017 hafi til að mynda aðeins verið upplýsingar um sjúkdómsgreiningar fyrir 492, eða 7%, samskipta. Þá hafi engin gögn borist embætti landlæknis frá lýtaskurðlæknum fyrir árið 2018.