Rússneskir friðargæsluliðar eru nú komnir til Nagorno-Karabakh eftir að skrifað var undir samkomulag sem Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, segir hafa verið sársaukafullt fyrir sig og þjóðina. Samkomulagið felur í sér að Aserbaídsjan mun halda því svæði sem Aserar hafa hertekið en þar á meðal er borgin Shusi, sem er sú næst stærsta í héraðinu. Þar að auki þurfa Armenar að gefa eftir umfangsmikið svæði fyrir 1. desember.
Ríkin tvö hafa nú barist um Nagorno-Karabakh í um sex vikur. Það tilheyrir formlega Aserbaídsjan en því hefur þó í raun verið stjórnað af Armenunum sem búa þar.
Samkomulaginu var fagnað í Baku, höfuðborg Aserbaídsjan, en í Jerevan, höfuðborg Armeníu, brutust út mikil mótmæli. Í morgun ruddust mótmælendur inn í þinghús landsins og gengu í skrokk á forseta þingsins. Þá hafa fregnir borist af því að skrifstofa forsætisráðherrann hafi verið rænd, samkvæmt frétt BBC.
Hér má sjá myndefni frá þinghúsinu í Jerevan í morgun.
VIDEO: Chaotic scenes erupted inside Armenia's parliament in the early hours of Tuesday as protesters angry at a ceasefire deal with Azerbaijan seized control of its chamber to denounce the country's leadership pic.twitter.com/2A4zjOwRz4
— AFP news agency (@AFP) November 10, 2020
Hávær áköll eftir afsögn forsætisráðherra Armeníu hafa heyrst og sömuleiðis hefur verið kallað eftir því að Armenar fylgi samkomulaginu ekki eftir.
Blaðamenn Reuters hafa eftir einhverjum Aserum sem rætt var við í Baku að þeir treysti Rússum ekki til að vera á svæðinu og til að ganga úr skugga um að samkomulaginu sé fylgt eftir.
Þá er haft eftir Arayik Harutyunyan, pólitískum leiðtoga Nagorno-Karabakh, að ekkert annað hafi verið í boði en að semja um frið. Annars myndi allt héraðið tapast. Pashinyan, forsætisráðherra, hefur sagt að ekki sé endilega um ósigur að ræða, nema Armenar telji sig hafa verið sigraða.
Útlit er fyrir að Armenar hafi misst fjölda hermanna, skriðdreka og annan herbúnað í átökunum. Það hefur að miklu leyti verið rakið til yfirburða Asera í lofti og þá sérstaklega vegna dróna sem Aserar fengu frá Tyrkjum, bakhjörlum sínum.
Þá hafa fregnir borist af ýmsum ódæðum í átökunum. Má þar nefna stórskotaliðsárásir á almenna borgara og aftökur fanga.