Skoðun

Börnin eiga að vera hjartað í kerfinu - breyting í þágu barna

Ásmundur Einar Daðason skrifar

Allt frá því ég tók við ráðherraembætti hefur forgangsverkefni mitt verið að bæta enn frekar hvernig við þjónustum börn og fjölskyldur þeirra. Í víðtæku samráði og samstarfi fjölmargra aðila, leikinna, lærðra, innan þings og utan, hefur verið unnið að því í hartnær þrjú ár að smíða undirstöður undir kerfi sem tryggir að börn og fjölskyldur þeirra falli ekki á milli kerfa og verði ekki send á eigin ábyrgð milli þjónustuaðila innan sveitarfélaga og ríkisstofnana. Verkefnið er risavaxið og felur sennilega í sér einhverjar mestu breytingar sem gerðar hafa verið á umhverfi barna á Íslandi í áratugi.

Ég er því gríðarlega stoltur og ánægður að kynna frumvarp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Frumvarpið ef afurð þessa víðtæka og góða samstarfs þar sem markmiðið er samþætting þjónustu í þágu barna til þess að auka samvinnu og bæta samfellu þjónustu við börn með hagsmunir þeirra að leiðarljósi.

Stefnan sem ég legg til í frumvarpinu er að láta mismunandi kerfi tala betur saman og loka gráum svæðum í þjónustu við börn og fjölskyldur. Í íslensku samfélagi eru of mörg dæmi um að ekki sé gripið nógu snemma inn í aðstæður barna. Einnig hefur verið skortur á því að börnum sé boðinn samþættur stuðningur þvert á stofnanir og kerfi. Í nýju kerfi á barnið, en ekki hver stofnun fyrir sig að vera útgangspunkturinn, þannig að barnið sé hjartað í kerfinu.

Frumvarpið tekur til allrar þjónustu sem fer fram innan skólakerfisins, í leik-, grunn- og framhaldsskólum, á frístundaheimilum og í félagsmiðstöðvum. Það tekur einnig til þjónustu sem er veitt innan heilbrigðiskerfisins, í heilsugæslu, á heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum og félagsþjónustu sem er veitt innan sveitarfélaga, barnaverndarþjónustu og þjónustu við börn með fatlanir, svo dæmi séu til tekin.

Í frumvarpinu er lögð rík áhersla á að börn og foreldrar hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi, án hindrana, ef á þarf að halda. Með breytingunum er leitast við að tryggja að barn og fjölskylda þess fái upplýsingar um þjónustu í þágu barnsins og þjónustuveitendur, fjölskyldan og barnið sjálft, eftir atvikum, móti í sameiningu markmið, úrræði og meti árangur.

Lagabreytingar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, og uppbygging stofnana til að styðja við samþættinguna eru mikilvæg fyrstu skref, en jafnframt eru breytingar á annarri löggjöf sem tengjast veitingu þjónustu í þágu barna nauðsynlegar. Þar má meðal annars nefna breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, barnaverndarlögum, löggjöf um heilbrigðisþjónustu og skólamál. Þegar frumvörpin verða komin í höfn og orðin að lögum, verður Ísland svo sannarlega ekki eftirbátur annarra ríkja hvað varðar þjónustu við börn og fjölskyldur, heldur forysturíki.

Fyrir áhugasama er hægt að horfa á kynninguna á frumvörpunum á vef Stjórnarráðsins. Kynningin hefst kl. 13.

Höfundur er félags- og barnamálaráðherra.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×