Tyson, sem er 54 ára, sneri aftur í hringinn á laugardaginn eftir fimmtán ára bið. Tyson og Jones skildu jafnir í æfingabardaga í Staples Center í Los Angeles.
Eftir bardagann greindi Tyson frá því að hann hefði reykt gras áður en hann steig inn í hringinn. Og líka eftir að bardaganum lauk, áður en hann ræddi við fjölmiðla.
„Sjáðu til, ég get ekki hætt að reykja. Ég verð að reykja. Ég reyki á hverjum degi og hef aldrei hætt því,“ sagði Tyson.
Venjulega komast boxarar ekki upp með að reykja gras fyrir bardagann en þar sem bardaginn á laugardaginn var eins konar æfingabardagi og kannabis ekki á bannlista slapp Tyson.
Hann hefur lýst yfir áhuga að keppa aftur, m.a. gegn bestu þungavigtarboxurum heims eins og Tyson Fury, Anthony Joshua og Deontay Wilder.